Útigangsfólk: Fréttin sem týndist

Nú eru Reykvíkingar að vakna upp við vondann draum að útigangsfólk er að setjast að í húsum sem húseigendurnir skilja eftir í vanrækslu og niðurníðslu og til gríðarlegra skemmda fyrir miðbæinn allann. Skemmdirnar lýsa sér í slæmu umhverfi þar sem vanvirðingin nær yfirhöndinni, verslunum er gert erfiðara að þrífast og það er fallandi lífsstaðall að búa við ýmsar götur eða heimsækja. Annars vegar eru húseigendurnir sekir um að skemma miðbæinn með vanrækslu og aumingja skap, með að leyfa gömlum húsum í sinni vörslu að grotna niður (les. húsum sem tilheyra líka sögu og menningu þjóðarinnar), -hins vegar er þetta fyrirbæri: Útigangsfólk.

Þegar ég var á aðeins yngri árum að alast upp í Reykjavík þekktist þetta nú varla. Útigangsfólk var eitthvað sem tilheyrði sögunni, maður las í bókum um fólk sem í fátækt og eymd flæktist á milli bæja og byggða og dó drottni sínum á vergangi þar sem öllum stóð á sama. Það þótti dæmi um framfarir að svona vergangur þekktist ekki lengur og skýrt merki um uppgang á Íslandi, sem þegar upp úr 1970-80 var komið á stig alsnægtar. Gott og öruggt að lifa á Íslandi. Alsnægtin skeði ekki 1997 eins og sumir virðast vilja halda.

Nú í fyrra eða hittifyrra fór ég svo að kaupa pylsu í Bæjarins Bestu. Þar voru ýmsir aðilar, m.a. uppáklæddir bankamenn í misgóðum jakkafötum að ræða um daginn og veginn. Þeir settust niður að éta sínar pylsur en stóðu upp og fóru um leið og aðskotadýrið birtist: Betlarakerling að koma og hljóðalaust gramsa í og éta pylsuleyfar upp úr ruslafötunni. Nú er ég vanur ýmsu hér í New York. Og ég er vanur að sjá Amerísk áhrif á Íslandi í gegnum árin þar sem allt er apað upp eftir Kananum og svo bætt ofan á að kalla kana vitleysingja. En þessi áhrif frá Ameríku, með græðgisvæðinguna og útigangsfólkið sem fylgir, er eitthvað sem ég er afar óhress með að sætta mig við. Fyrirlitningin gagnvart þessu fólki skein líka í gegn. "Dópisti!!" eða "Hún vill vera svona" eða "djöfuls aumingi." Konan sem var greinilega sársvöng, þótti mönnunum svo ógeðsleg að þeir litu á hvorn annann með fýlusvip og flúðu. Mér flaug í hug að bjóða konunni pylsu en auðvitað leysir það ekki neitt. Svo fór ég að líta betur í kringum mig í miðbænum og tók eftir mörgum einstaklingum á vergangi. Það eru töluverður hópur að éta up úr rusladöllum. Nú var ég endanlega sannfærður um að kerfið hefði heldur betur brugðist. Og enginn vafi á að þetta fer stigvaxandi, hægt og sígandi.

"Neyðin kennir naktri konu að spinna" hrópa græðgisvæðingarsinnar. En nakin kona er nú óvart líklegri til að frjósa í hel ef þú spyrð mig álits. Þ.e. ef hún er allslaus eins og gefið er í skyn í málshættinum. Fólk getur jú verið óskaplega viðkvæmt líka. Margir eiga í vandræðum með neyslu eiturefna ýmissa og sálræn vandamál. Flestum hefur verið útskúfað. Útigangsfólkið fer hönd í hönd saman við þessi trúarbrögð með að ríkið sé svo voðalega vont og eigi ekki að vera með puttana í einu eða neinu. Önnur áhrif frá trúarbragðadellu í Ameríku, þessum með Friedman og Reagan á stalli misvitra dýrkunarsinna. Og þá fer sem fer. Kerfið er undir stöðugri árás ólýðræðislegra afla sem í nafni "einkavæðingar" eru í raun mafíuklíkur sem svífast einskis í að sölsa undir sig eigur landsmanna á fáar hendur í gegnum peningamátt og eyðileggja þá menningu sem er fyrir og fólki eðlilegust. Þessar sömu klíkur komast til valda undir því yfirskyni að segjast vera talsmenn lýðræðisins en eru auðvitað eitthvað annað. Og eftir því sem ríkið smækkar og verður valdaminna þeim mun fleiri falla í gegn um möskva þess nets sem á að tryggja jafnari aðgang.

Og lýðræðið riðar til falls úr því hlutverki sem við ólumst upp við.

Útigangsfólk er sönnun þess að þó langflestir hafi það gott, sumir í einkaþotunum, flestir það mjög gott og sjálfsagt stór hlutinn álíka gott og 1980. Sem er fínt og gott svo langt sem það nær. En svo eru líka margir sem virðast hreinlega ekki vera að meika það. Þegar ég fór út í nám til USA fyrir 25 árum var ég all-sjokkeraður á að sjá utigangsfólk á götum. Það var merki um að Ameríska kerfið hefði stóra galla og ég stend enn við þá fullyrðingu og hef lesið mikið síðan. Það er mér til dagsins í dag óskiljanlegt hvers vegna ekki er fyrir hendi kerfi sem kemur í veg fyrir að fólk sem hefur orðið undir í lífsbaráttunni þurfi að sofa í ruslahaugum. Og á meðan eru aðrir að kvarta yfir að fá ekki lífrænt ræktaðar gulrætur í gulrótardjúsinn. 

Í einum fyrsta arkitektatímanum í Milwaukee (1983) benti einn prófessorinn á hvað það væri frábært við Ísland að þar væri hæsta hlutfall húseigenda, þ.e. fólks sem ætti sitt eigið húsnæði. Það öryggi hefur nefnilega magföldunaráhrif út í þjóðfélagið og sennilega mun stærri ástæða fyrir velferðinni en braskið  sem verið er að benda á. 

Nú segi ég að Íslenska kerfið hefur brugðist þessi fólki sem er á vergangi. Nú þarf að gera stærra átak til að koma fólki á réttann kjöl í lífinu. Það er mun mannlegri langtíma "fjárfesting" en Sundagöng.

Bara hugleiðingar.

Kveðjur úr stórborginni. 


mbl.is Ekki með leyfi til að búa í gámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna

Ótrúlega góð færsla hjá þér um staðreyndir.Bestu kveðjur í stórborgina.

Erna, 26.3.2008 kl. 18:18

2 Smámynd: Ellý

Þetta er góð grein hjá þér og ég er hjartanlega sammála. Þykir mér aðal-fréttin hérna vera sú að fólk hafi ekki annan stað á sofa á en gám!

Að vísu hef ég kynnst ýmsum sem ýta frá sér allri boðinni hjálp en það má ekki setja þann hattinn yfir alla sem eiga um sárt að binda.

Ellý, 26.3.2008 kl. 18:20

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Takk fyrir innlitið. Útigangsfólk er endurspeglun á okkar gildum. Sumt af þessu fólki hefur gefist upp og í einhverju fari sem erfitt er að breyta. Það þarf bæði að byrirbyggja vergang og hjálpa þeim sem eru dottnir "í ræsið." Og gera það í gær.

Ólafur Þórðarson, 26.3.2008 kl. 18:33

4 identicon

Lífrænt ræktaðar gulrætur eru góðar fyrir heilsuna og það er sama hver á í hlut. Gleðilegt sumar!

skordýraeitur (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 19:57

5 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Mér skilst að eitt af því sem lengdi mannsaldurinn sé það að fólk fékk loksins nóg að éta. Svo varðandi lífrænt ræktað, þá er víst vandamál að vita fyrir víst hvort gulrótin sé það eða ekki. Sem metafor gæti hún verið ávísun á góð laun seljandans. Auðvitað er það sem á við í BNA, veit ekki hvernig það er á Íslandi þar sem fólk er heiðarlegra...

Ólafur Þórðarson, 26.3.2008 kl. 20:55

6 Smámynd: Sturla Snorrason

Skelfilegt ástand með þetta fólk, horfi á þetta daglega út um gluggann á Moggahöllinni niður á Ingólfstorgi. Í morgun fengum við útlendan róna inn á skrifstofu og hann læsti sig inn á klóseti. Það virðist vera komið Pólskt rónagengi til viðbótar við okkar Íslensku.

Sturla Snorrason, 26.3.2008 kl. 23:35

7 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Hafðu þökk fyrir pistil þinn og þær röksemdir sem þú setur fram þar.

Sjálf bloggaði ég um fréttaflutning íslenskra fjölmiðla af skipulagsmálum? - húsnæðismálum miðborgarinnar.  Hefur mér þótt standa upp úr að rætt sé um heimilislaust fólk - útigangsfólk eins og hverja aðra meindýraplágu.  Algerlega réttindalausar manneskjur - sem ekki falla undir það lögmál að alger grunnþörf mannsins sé húsaskjól.

Viðhorf Sturlu Snorrasonar hér að ofan hryggir mig - og það sem meira er það er svo ótrúlega algengt í okkar landi.  Sturla!  tekurðu eftir að þú segir ,,skelfilegt ástand með þetta fólk - horfi á þetta daglega út um gluggann...."

Rónagengin sem þú talar um er sjálfsagt hópur fólks sem á við þungan sjúkdóm að ræða.

Slík viðhorf segja meira um okkur sjálf en fólk sem er illa haldið og sjúkt. 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 27.3.2008 kl. 00:30

8 identicon

Þarftu ekki að vinna Ólafur ?

Örn (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband