Ferð til Íslands síðla Janúars * Lending heima * Nettenging á flugstöðvum * Erró bókin * Mikines * Slavoj Zizek * Kominn aftur til New York

Ferð til Íslands síðla Janúars.

LENDING OG LEIT HEIMA
Fór til Íslands í síðustu viku á ýmsa vinnutengda fundi og lenti í þessari leiðinda Leifsstöð eins og það sé einhver annar valkostur. Þar tók við agressíf leit á manni. Skil ekki hvað verið er að leita á farþegum eftir að búið er að gera nákvæmlega hið sama á JFK! Dæmalaus tvíverknaður og mér sýndist á starfsfólkinu það nú ekki vera voða sannfært um að vera að sinna starfi af viti. Fólk er að lenda eldsnemma, margir ósofnir og maður er með unga dóttur í meðförum og svo tekur við ímynd lögregluríkis þar sem fækka þarf fötum og maður rannsakaður eing og glæpon. Brandarinn er að einn starfsmaður var látinn standa við borð og spyrja farþega hvort þeir væru með gos eða vatnsflösku. Svo voru farþegarnir látnir annað hvort þamba gosið á staðnum eða henda því. Auðvitað eins gott því Icelandair gæti verið að útbýta sprengjugosi meðal farþega í fluginu vestanfrá. Eitthvað að í lógíkkini hér, nema Coca Cola vilji selja meira inní flugstöðinni, þá meikar þetta fullkomlega sens. Fólk á jú að styðja betur við bakið á þessum grey fyrirtækjum sem rétt hanga á horreiminni á þessum síðustu og verstu tímum.

NETTENGING Á FLUGSTÖÐVUM
Ferðaðist einnig til Egilsstaða og kom því við á 3. flugvöllum. Það þykir mér afar slappt að aðgangur að frírri þráðlausri nettengingu er enginn! Lélegt hjá þessum flugfélögum að geta ekki haft ókeypis nettengingu fyrir farþega, margir hverjir hafa fartölvur og tíma til að bíða, þetta er jú árið 2008. Flugfélagið hefur vel efni á að koma upp routerum og tengja farþega inn á netið án þess að þeir þurfi að vera að greiða utanaðkomandi aðilum fyrir svona einfaldann hlut. Hér í New York fer ég t.a.m. ekki á kaffistofur nema fyrir hendi sé ókeypis þráðlaus nettenging. Annað er nirfilsháttur og ég styð ekki slíka businessa. Í Keflavík þarf maður t.a.m. að tengjast einhverju djöfuls TM fyrirtæki (held það sé nafnið) sem rukkar 500 kall á klst! Tómt rugl og dæmi um hve vel Skröggur frændi hefur orðið fyrirmynd landsmanna og framsóknarmennskan með einokunina er ennþá landlæg plága. Þetta er enn eitt dæmið um af hverju sumir útlendingar telja sig rúna inn að skinni við að heimsækja þetta blessaða land. Hvað kemur næst? Setja 10 kr í þar til gerða rauf til að fá eitt blað af klósettpappír í flugstöðvarbyggingunum? Eða 10 Kr fyrir 3 lítra af vatni úr krananum í vaskinum? Kannski best að vera ekki að stinga upp á svona hugmyndum, mín reynsla er að þær eru stundum framkvæmdar. Ekki vantar fólk með hagræðingar"vit" sem flækir hlutina í staðinn fyrir að fá sér heiðarlega vinnu.

ERRÓ
Ætlaði svo að fara á Erró bóka-undirskrift. Það var kl. 14:00 á Laugardegi fyrir viku. Ég svaf yfir mig, afsökunin: Nýlentur og grænn í framan af svefnleysi. Ætlunin var að reyna að fá listamanninn góða til að skipta á eintaki af bókinni minni sem í undirtitli heitir nú bara óvart sama nafni "Ólafur Þórðarson í tímaröð 1977-2007." (sjá link á Gegnumgang efst til hægri). Ætli honum hefði ekki bara fundist það svoldið skondið? Verð að kaupa þessa bók í næstu ferð. 

MIKINES
Á Föstudag fékk ég svo nasasjón af sýningu Mikines og skoðaði verkin þar í friði daginn áður en opnunin var. Frábært yfirlit hjá Aðalsteini Ingólfssyni um merkilegann málara, sýningunni vel upp raðað með ákveðinni lógík í myndefni. Það er eitthvað mjög heilsteypt við þessi verk sem vantar oft í listina í dag, einhver meðvitund um eigin smæð og hógværð innan um stærri öfl. Kannski var sjálfsdýrkunarsýkin ekki á eins háu stigi og hún er núna? Jarðarfararmyndir endurspegla tíðaranda þar sem virðing var borin fyrir einhverju stærra en maður sjálfur er. Sumar fígúrur næstum andlitslausar og þögnin yfirráðandi. Svo eru þarna líka falleg portrett verk, leist sérlega vel á þau sem eru með grárri móðu yfir öllum myndfletinum. Sem og litríkar geómetrískar bæjarmyndir sem endurspegla svipaða stíla annara listamanna með fjall í bakgrunni o.s.frv. Ein myndin "Skipin láta úr höfn" minnir mig á Ópið hans Munch. En á allt annan máta og með meira jarðbundnu yfirbragði. Þá á Laugardag komst ég svo á sjálfa Mikines opnunina og boðaði þangað nokkrum félögum og ættingjum líka. Þar var troðið og gott að koma, hitti m.a. listamanninn JBKRansu. Næsta skrefið er að eigna sér þessa fínu Mikines bók sem gefin var út á síðasta ári, væri fróðlegt að fara í gegnum hana. 

SLAVOJ ZIZEK
Tókst svo á Laugardaginn að sjá Zizek fyrirlesturinn. Heimspekingurinn stendur fyrir sínu og er eiginlega afkastamikill í að auka áhuga fólks á faginu. Fyndið að spurningarnar þarna í lokin virtust benda til að menn kannski skildu ekki allt sem hann var að fara. Stalst til að taka upp þennan fyrirlestur, maðurinn er eiginlega einn af mínum uppáhalds núlifandi karakterum og ég verð nú að eiga mína hljóðmynd af honum. Mér þóttu áhugaverðastar pælingar hans um náttúrufræði og hlutverk hennar í heimsmynd samtímamanna. Samlíking hans með "ignorant chicken" voru ansi hnittnar og tær snilld. Ég nennti nú ekki að fá undirskrifaða bók hjá honum. Kannski hefði ég átt að bjóða honum að býtta, eins og með Erró. Allavega er bókin mín með gati í gegn, sem er heimspekileg pæling líka, m.a. um rýmið og fjórðu víddina.

FLUGFERÐIN GÓÐA
Kom aftur til New York í gærkveldi. Vélin fór í loftið í rokinu mikla í gær og þótti mér flugtakið frábært. Svona miðað við farþegaflug þar sem aldrei skeður neitt. Vélin tók stefnu á flugbrautinni beint á rokið og þegar hún tókst á loft fór hún eiginlega bara lóðrétt upp og þótti mér þetta bara einstaklega kúl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband