Er Ísland borgríki? Eða hylkjabyggð? Til umhugsunar.

Sá á ágætu bloggi að Ísland sé "BORGRÍKI." 

Getur þetta verið? Borgríki? Það eru afar fáir blettir á Íslandi öllu sem gætu flokkast undir BORG, skv. skilgreiningu borgarskipulagsfræðinga. Meira að segja langt yfir 90% af Reykjavík er hreint dreifbýli, tengt saman með ömurlegum hraðbrautarslaufum og eyðilegum umferðareyjum þar sem þúsundir manna ferðast saman án þess að yrða á eða sjá hvort annað. Það getur í sumum skilgreiningum kallast borg, en er ekki borg, heldur dreifð íbúðabyggð fyrir fólk í hylkjum. Stór grassvæði einkenna ekki borg, heldur dreifbýli. Að keyra lengi um auð sdvæði er eki að keyra í borg. Borg er eitthvað mun flóknara en þessi mengjadæmi fyrir 9 ára krakka, sem skipulagsyfirvöld hafa lengi notast við. Borg er þéttbyggður staður fyrir margbreytileg viðskipti, þéttur massi með blandaðri notkun þar sem fólk býr og starfar og verslar, gengur um götur eða búa á hæð fyrir ofan kjörbúðina og nota almenningssamgöngur etc. Í Reykjavík eru langflestar gangstéttir fáfarnar og fólk hittir engann jafnvel á margra kílómetra ferðalagi. Og þó, það eru til einstaka undantekningar. Svo hvernig er hægt að tala um "borgríki" þegar Borg sem slík er varla til á Íslandi, nema kannski í miðbæ Reykjavíkur?

Svo eru sumir að gleðjast yfir bruna á menningararfi Íslendinga í gær. Furðulegt. Annar svona menningararfur er til á Ísafirði. Þar er miðborgarkjarni með nokkuð samfelldri götumynd, sem er ein af gersemum Íslands. Hvað ætli líði langt þar til einhver gróðafíkillinn eyðileggi það?

Geri ráð fyrir að menn fljúgi á Ísafjörð vegna þess að Ísland "er svo voða mikið borgríki"  Wink og ef Akureyri er úthverfi, þá er fyndið að keyra 4-5 klst í "úthverfið." Sem er jafnlangur tími og héðan frá Manhattan til Boston eða héðan til Washington DC. Eða er Boston úthverfi New York borgar, eða öfugt? Varla. Jafnvel þó þokkalega samfelld byggð sé þarna á milli Boston NYC og DC er það að mestu dreifbýli og úthverfi.

Tal um að Suðurland sé hluti af stór-Reykjavík er að mínu mati svolítil minnimáttarkennd þess sem býr í dreifbýli að vilja líka fá þetta stóra líka eins og hinir. Það er vel hægt að sameina einhverja strætóa ofl. en ef maður keyrir í meira en hálftíma í gegnum óbyggð landsvæði, þá kallast það einfaldlega ekki borg: Hraun, klettar og mosi eru ekki borg. Og þó, kannski í þjóðsögunum. Svo ef menn búa í, segjum Árborg, þá búa þeir uppi í sveit eða í einhverjum af bæjunum sem þar eru. Það er bara fínt mál og gott og heilbrigt að kunna að meta fíngert mynstur samfélaga sem mótast í smærri byggðarkjörnum. Ég kann að meta að koma við á Selfossi þar sem vegurinn liggur í gegn, þar er viðkunnanlegt og kannski helst óskandi að færri keðjubúðir séu þar.

Nei þetta eru áhugaverðar pælingar með hvort Ísland sé borgríki. Held að nær sé að tala um að Ísland sé land þar sem fólk ferðast um í lokuðum vaccum glanshylkjum, sem sneiða framhjá öllu Íslensku á hraðferðum um landið. Hraðferðum til að komast eitthvað til að slappa af ofsalega snöggt, enda er orðinn nær ógerningur að stoppa hvar sem er vegna stórhættu á slysi, vegurinn býður ekki upp á stopp. Íslenski mannheimurinn er að mestu leyti framlenging á erlendum skipulagshugmyndum, sem hafa ekkert með landann að gera. Þessar hugmyndir eru eins og hver önnur auglýsing, vara, banani, hvað sem menn vilja kalla það sem keypt er. Og bíllinn selst grimmt.

Í raun er Jón Sigurðsson að tala um að vegirnir hafi batnað og mistúlkar það yfir á borgar-eitthvað.

Soddan er nu det. 

Af bloggi Magnúsar Þórs Hafsteinssonar :
"Jón Sigurðsson framsóknarformaður meðal annars: "Íslenska sveita- og þorpasamfélagið er úr sögunni. Í stað þess er hér risið nokkurs konar borgríki, samfélag sem ber mjög ólík einkenni og lýtur allt öðrum lögmálum. Íslendingar standa nú í róttækri samfélagsbreytingu sem sést á breytinum í byggðamálum, í búferlaþróun frá landsbyggðinni til Suðvesturlands. Samfélagið hefur breyst – frá því að vera keðja sjálfstæðra héraða, það er félags-, atvinnu- og þjónustusvæða umhverfis landið, - og yfir í að verða borgríki með miðju á Suðvesturlandi og útstöðvar annars staðar"."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Hann´Jón Sig lætur ekki deigan síga karlinn.  Veit ekki alveg hvaðan hann kemur.  Smá innlegg í skrif þín um brunann í miðbæ Reykjavíkur í gær,eyðingu menningarverðmæta og borgarfíling. Ég heyrði  frá vinafólki konunnar minnar sem er búsett erlendis. Þau eiga litla íbúð í 101. Maður hringdi og vildi kaupa íbúðina þeirra sem nota bene var alls ekki á sölu. Hann bauð margfalt það sem þau höfðu látið sig dreyma um að selja hana á og þar sem í biðgerð hafði verið að minnka við sig rýmið þá slógu þau til. Að sölu lokinni komust þau að því að viðkomandi kaupandi var að versla íbúðina til að rífa hana ásamt mörgum öðrum litlum íbúðum - til þess að byggja háhýsi. Ég hef það fyrir vana, sumparts vegna þess að ég er svo vel upp alinn og kurteis að kasta ávallt kveðju á meðbræður mína sem ég mæti á daglegum gönguferðum mínum. Viðbrögðin eru yfirleitt á einn veg. Undrunarsvipur, stundum svarað oní brjóstið oftast horft á mig eins og ég sé af gerðinni E.T. Við erum bæld, við búum í litlum kössum sem verja okkur óþarfa utanaðkomandi áhrifum þ.e. of miklum mannlegum samskiptum. Bælingin elur af sér tortryggni, öfund og afskiptaleysi.  - Bið að heilsa NY sem er borg í lagi  -  er á leiðinni að hitta vin minn Mick í NYU..  gleðilegt sumar.

Pálmi Gunnarsson, 19.4.2007 kl. 22:15

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Afar glögg lýsing hjá þér Pálmi á dæmigerðum smáborgara hér í R.vk. Ódulin vanmetakennd sem finnur sér farvegi í bjánalegu oflæti eða uppteiknuðum hundshaus við mannlegum samskiptamáta. Óþarfi þetta með hundshausinn því um marga þessa menn mætti segja það sem stendur í vísunni snjöllu:.....-Ég held ég þekkti hundssvipinn - þó hausinn væri ekki á þér

Árni Gunnarsson, 19.4.2007 kl. 23:53

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Þetta með að við búum í of litlum kössum er annað mikið efni sem ég mun skrifa um seinna. Það er nefnilega rétt að borgarskipulag frá skömmu eftir seinni heimsstyrjöld hefur ýtt undir félagslega einangrun. Þetta eru áhrfi Amerískra braskara og er löng og áhugaverð saga sem spannar aftur ca eina öld eða frá þeim tímum þegar bíla- og olíuframleiðendur keyptu upp sporvagnakerfin í Amerískum borgum og rifu til að allir neyðist til að nota bíla.
Þú kemur nú kannski við í kaffi hjá mér ef þú hefur tíma, Pálmi.

Ólafur Þórðarson, 20.4.2007 kl. 01:35

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ísafjarðarmyndin er nú að verða eins og tannlaus kerling.  Ný kirkja, sem lítur út eins og rafstöð, stjórnsýsluhús, sem er einhverskonar glerstandpína, sem er í engu samræmi við neitt í bænum.  Ljótasta hótel á íslandi og svo má lengi telja.  Það er einhver minnimáttarkennd, sem hrekur þorpsbúa til að byggja í úreltum og ómannvænum post modernisma, sem enga samræmda stefnu hefur. Þeir vilja vera heimsborarar og gleyma því að þorp er þorp og aðdráttarafl þorpa felst í lágreistri mannvænni og vinarlegri byggð.  Nú er fátt, sem trekkir fyrir firrta borgarbúa með peninga til að heimsækja slíkan stað annað en þögnin.  Alger þögn. Ekki einu sinni fuglahljóð.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.4.2007 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband