Peningasóun.

Ég hef áður bloggað um þessa brú. Ég er alfarið þeirrar skoðunar að Selfoss fái meira út úr umferð í gegnum bæinn en að nýjar keðjubúllur opni við veginn fjærri kjarna Selfoss. Þegar vegurinn verður fluttur úr Selfossi mun bærinn dofna til muna og slatti af mannlífi bæjarins dofna. Það er nefnilega til hagsbóta fyrir Selfoss að vegurinn liggur í gegn, þá tínast til kúnnar sem í framtíðinni munu bara keyra framhjá á 90km/h norðan við bæinn. Enda er þetta grundvallaratriði í borgarskipulagi:

Byggð myndast umhverfis aðal umferðaræðar. Svo þegar "framfarir" eiga sér stað, er lögð hraðbraut svoldinn spotta frá miðbæjarkjarnanum. Miðbærinn deyr drottni sínum  og við hraðbrautina þrífast í staðinn keðjubúllur sem enginn í bænum á neitt í. Þetta má sjá víðs vegar um heiminn, m.a. í smábæ í New York fylki þar sem ég á smá landskika. Þar var einmitt svona smábær sem svo dó þegar aðalleiðin var lögð 1km fyrir utan. Í dag er fyrrum miðbærinn í niðurníðslu og flestar byggingar horfnar, en eftir eru grasi grónar gangstéttir. Ég er ekki að segja að sama muni verða um Selfoss, en við sjáum að svona pláss þrífst að töluverðu leyti á viðskiptum ferðalanga sem keyra í gegn. Svona eins og Vík í Mýrdal og flestir staðir á landinu gerðu áður en vegir voru lagðir langt í burtu til að stytta leiðir um einhverja metra.

Er ekki hægt að nota peningana í eitthvað þarfara og haldmeira? Til dæmis að koma í farið betri almenningssamgöngum, góða stoppistöð í miðbæ Selfoss sem miðpunkt strætó í Reykjavík og um Suðurlandsbyggðarkjarnana. Þetta myndi styrkja miðbæinn á Selfossi.


mbl.is Rætt um að flýta nýrri Ölfusárbrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Björnsson

Sem fyrrum Selfyssingur verð ég að segja að það versta við þessa fyrirhugðu brú er að með henni verður eitt besta útivistarsvæði Selfoss eyðilagt.  Göngustígar og skógur meðfram ánni að norðanverðu sem er mjög vinsælt svæði fyrir hundaeigendur, og svo verður valtað yfir miðjann Golf-völlinn að sunnanverðu.  A.m.k. stóð þetta til á síðasta skipulagsplani sem ég sá.

Róbert Björnsson, 8.3.2007 kl. 06:08

2 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Eigum við að aka 30 km lengri leið til Akureyrar fyrir Blöndósbúa. Eigum við að aka í gegnum Mosfellsbæ og sleppa Sundabraut.

Þegar við tökum ákvarðanir í slíkum málum verðum við að skoða heildina. Selfoss er aðeins einn af mörgum stöðum sem geta misst spón úr aski sínum. Hins vegar hefur Selfoss vaxandi möguleika til þess að vaxa án þess að þjóðvegur 1 skeri hann í miðju. Ekki vildu Selfyssingar hafa braut með 80 km. hámarkshraða í gegnum bæinn eins og dæmi eru um hér í Reykjavík. Maður getur ekki bæði sleppt og haldið. Með höfn í Bakkafjöru eykst umferð í gegnum Selfoss mjög mikið. Er æskilegt að hafa umferðarhnút inn í bænum þegar álagið er mest.

Íslendingar hafa oft tekið breytingum og vaxið með þeim í stað þess að berjast gegn þeim. Ef við berum saman sem dæmi tölvuvæðingu í iðnaði. Íslendingar löguðu sig að þessu þegar Bresk verkalýðsfélög börðust á móti þar til það var byrjað að há svo breskum iðnaði að það varð að breyta. Fyrr eða síðar gengur ekki að hafa þjóðveginn í gegnum Selfoss - breytum strax og lögum okkur að því.

Jón Sigurgeirsson , 8.3.2007 kl. 17:41

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Sjálfur vorkenni ég engum að hægja á sér á 1,5km kafla í gegnum Selfoss. Er það ekki 0.75% leiðarinnar til Vík í Mýrdal? Kannski er það erfitt fyrir blindfulla íbúa Árborgar að koma af börum í Reykjavík að þurfa að beygja til vinstri. Stýrið getur jú reynst flókið apparat fyrir ónefnda ökuþóra.

En því miður virðist fólk almennt haldið þeirri firru að halda að það sé í lagi að bílaumferðarverkfræðingar taki að sér borgarskipulag. Má líka kalla það samfélagsskipulag. Af hverju ekki bara láta pípara ráða ferðinni? Svo er ekki um að ræða um neinar 30km styttingar í þessu sambandi, ætli raunhæft sé ekki verið að tala um eitthvað 1-2km styttingu þegar sneitt verður framhjá Selfossi, og það með aldeilis ærnum tilkostnaði. Nóg komið með dellu í bílaumferðarbruðli. Segi enn og aftur, að peningunum ætti að eyða annars staðar, t.d. í að byggja upp miðbæjarskipulag Selfossi. Byrja á samtengdum götuljósum sem tryggir umferðarhraðann í 40km/h. Púkka undir ýmsa einkarekna starfsemi sem nýtur góðs af umferðinni í gegn og setja upp góða strætómiðstöð með reiðhjólastæðum, smá sjoppu og stígum sem styðja göngur og útiveru íbúa bæjarins. Reiðhjólastíga um Selfoss þvers og kruss og tengingu yfir í Hveragerði. Þetta kostar ábyggilega minna en brúin og er mun uppbyggilegra fyrir byggðarlagið.

Ég vil líka benda á að eitt af því sem hefur valdið helling af umferðarslysum hér í USA er einmitt að hraðinn er ekki brotinn nægilega upp. Keyrt er nánast beint af augum klukkutímunum saman, ekki furða að fólk sofni og það án þess að fara á bar fyrst.

Þetta er ágætur punktur þetta með framfarirnar. En ef bæjarfélag missir gestina sem aka í gegnum það, þá er afturför í gangi. Ég er alveg harður á að þjóðvegurinn eigi að liggja í gegn um sem flesta smábæi á landinu eftir því sem við verður komið. Það er hluti af þeirra tilvist og hluti af því að ferðast um landið. Vonandi verða allir vegir ekki bara sniðnir að þörfum flutningabíla, það þurfa nefnilega ekki alls staðar að vera hraðbrautir.

Ólafur Þórðarson, 9.3.2007 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og sjö?
Nota HTML-ham

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband