Hlutverk virkjana og álvera í hruninu.

Skrifaði þetta innlegg við blogg Ingibjargar Elsu Björnsdóttur, en það birtist ekki svo ég neyðist þá bara til að birta það aftur hér:

Af hverju björguðu Kárahnjúkar ekki fjárhag Íslands? Hvers lags spurning er þetta mín kæra Ingibjörg? Er þetta sanngjörn spurning, að ætla álveri að bjarga Íslandi? Það er ekkert fullkomið, hvorki fiskur, hvalur né túrisminn. Ekki einu sinni umhverfisverndarsinnar. Álver og stífla er eitt svona apparat sem hefur möguleika á að skila störfum og innspýtingu í byggðarlög ef rétt er haldið utan um það.

Svo er hitt að halda fram að aldrei hafi verið byggð stífla sem borgaði sig er hæpin fullyrðing líka. Hefur Búrfellsvirkjun borgað sig fjárhagslega? Er virkjunin ekki einmitt uppgreidd og skilar hreinum hagnaði núna? (Þó sumir vilji deila um "hrein"leikann Wink   ) Hefur virkjunin í Sogi skilað sér? Ég held að menn verði að fara varlega í að lýsa yfir að virkjanir borgi sig aldrei, þó þeir séu á móti sumum þeirra af ýmsum ástæðum. Sumum ástæðum gildum.

Nú veit ég að vegna álvers eru hundruðir starfa í gangi í Fjarðarbyggð og án efa hafa mikil jákvæð peningaleg áhrif á byggðirnar þar. Hjálpa til við að viðhalda mannabyggðum, fyrst bröskurum var nú leyft að hverfa á brott með kvótann eða endurselja íbúum kaupstaðanna á uppsprengdu verði. Ekki getum við leyft því að viðgangast að byggðir Austfjarða detti upp fyrir, það væri stór skellur og risastórt menningarlegt skipbrot! Það skilja menn ef þeir hafa dvalið á austfjörðum, bara allt annað land en forljóta úthverfagutlið út frá Seltjarnarnesskaganum gamla. 

Eigum við ekki frekar að setja "byrjunarpunkt" þar sem peningagræðgisvæðingin leyfði kvótabrask? Menn geta valið sér byrjunarpunkta eftir hentisemi til að réttlæta það sem þeir fyrirfram trúa á og það á við hagfræðinga og alla þá sem kveða sér hljóðs í svona málum.

Já það má vel vera að hægt sé að merkja ákveðna þenslu í upphafi Kárahnjúkaverkefnisins. Já af hverju ekki? En miðað við tölur bankabraskaranna þá eru 100+ Millj stífluverkið peningalega séð tiltölulega léttvægt. Aðra eins upphæð fengu bankatopparnir í erlendum lánum til að kaupa með og braska í hlutabréfum!!  Menn eiga að beina augum að þeim spilavítisbröskurum sem í nafni markaðs- græðgis- og sjálfsdýrkunarsýki hafa kollsteypt landinu. Þeir voru að selja fyrirtæki fram og aftur til að græða og stækka lánabóluna. Það er ekki virkjunin sem er málið heldur skólabókardæmið um brask. Útþennslubóla sem sprakk. Virkjunin var takmörkuð þennsla.

Ég er nefnilega sannfærður um að frjálshyggju-öfgamennskan hefði komist á sitt dellustig burtséð frá Kárahnjúkum. Ég hef horft á þetta héðan frá New York og fylgst vel með í BNA og merkt breytingarnar á Íslandi í gegnum sérstaklega sl. 10-15 ár og þær eru ekkert lítið klikk. Rétt eins og á árunum þar áður hér í BNA. Árið 2002 byrjaði uppsveifla í BNA sem getur alveg eins verið sett sem "ástæða" bankahrunsins. Greitt var fyrir lánum og ýmis "uppgangur" hófst á alþjóðlegum peningamörkuðum eftir síðasta hrun sem var byrjað skömmu fyrir 11. Sept 2001. 

Tilraunir til að smella bankahruni á stífluna er ekkert annað en þráhyggja mótmælenda, sem eru staðnir að því að hafa horft á vitlaust vandamál í áraraðir. Nú á að sníða fótinn að skónum!

Og Mogginn, í raun sögulega séð eins gott blað og hann hefur í raun verið verið í gegnum árin (fyrir utan að vera svoldið litað flokksblað), fór eins og önnur blöð (fyrirmyndir frá Ameríku) út í dellu með spákaupmennsku að tilkynna á forsíðum hvort markaður hafi farið upp eða niður sama hvað fáránlega lítið. Og að tilkynna fyrirtækjabrask án nokkurrar gagnrýni eða stærri myndar og svo auglýsa fyrirtækin í flennistórum auglýsingum í samablaði (!)

Nei ég skil alveg gagnrýni á Kárahnjúka, en margt vitlaust hefur verið sagt í gagnrýni um þá í gegnum árin. Það mikilvægasta hefur farið framhjá gagnrýnendunum og það er sjálf frjálshyggjan og dýrkun á gangsternum frá Chicago; Milton Friedman, sem hefur verið ógagnrýndur talsmaður braskara og einkavinavæðingarhyggju. Þrátt fyrir að hann er innantómur og hrokafullur bullukollur. Það er nær að setja byrjunarpunktinn á bók hans "Capitalism and Freedom" frekar en einhverja stíflu. Ég er að segja að áherslurnar voru rangar og áttu alls ekki að vera stíflan eða álver, nema frá sjónarhóli náttúruverndar, heldur krumlur frjálshyggjunnar sem voru að leggjast eins og mari yfir Ísland. 

Og Gerður Pálma, sæl, þú bendir á mikilvægustu hlutina, sem eru þeir, að verið er að selja orkubransann erlendum fyrirtækjum. Þetta er enn meiri skandall en sala bankanna eða hvað þá einhverjar virkjanir. En rökrétt framhald einkavæðingartrúflokksins og forheimskunnar í kringum Friedman. Nú hefur verið talað í gegnum árin um "lénsskipulag hið síðara" og nú erum við að horfa á endapunktinn á því ferli. Hann verður stærstur. Þið getið tekið þessu sem varnaðarorðum. Og hverjir ætla svo að mótmæla því?

Þegar erlend fyrirtæki eignast íslenska orkugeirann (sem er bankabraskinu og Friedmanisma-dýrkun að kenna) þá mun að fullu rætast þetta "síðara lénsskipulag." Erlendum eigendum er nefnilega skítsama um  vinnandi fólkið NEMA þegar hægt er að sýna þeim aðhald. Spurningin um aðhaldið er lykillinn í að geta fengið til landsins þann iðnað sem mikil þörf er á. Og aðhaldið er ekkert flókið NEMA vegna braskaranna sem hafa í raun knésett landið og bundið hendur landsmanna aftur fyrir bak. Ég er auðvitað hlynntur því að iðnaður sé settur upp á landinu því hann skapar atvinnu og gjaldeyri etc. 

Að kenna um virkjuninni er algerlega út úr kú. Vandamálið er fyrst og fremst hugmyndafræðilegs eðlis. Eins konar "vírus" hefur fest rætur í kollinum á stórum hópum.

1998 fór ég með vinum þ.m. erlendum kunningjum í gönguferð um hálendið. Við stoppuðum við læk og ég blaðraði eitthvað, voða stoltur, um að íslenska vatnið væri það besta, heilnæmt og hreint og bragðgott og fékk mér stórann sopa úr læknum. Við bjuggum okkur til te og höfðum það gott og drukkum vatnið og átum með samlokur og slíkt. Eftir smá stund labbaði ég aðeins ofar og sá notaðann túrtappa í læknum svona 3 metrum ofar en þar sem við fengum vatnið. Þarna lá hann, brúnn, útbólginn og ógeðslegur. Auðvitað sagði ég ferðafélögum ekki frá því að hreina landið byggi til öðruvísi te. En þá rann líka upp fyrir mér að "hreint land" er að mörgu leyti bara áróður, stikkorð. Hefur því miður ekki alltaf með raunveruleikann að gera þegar vibbinn er við hvert horn. Það er heldur ekkert hreint við það að byggja enn eitt úthverfið, leggja hálendisvegi á landsvæðum sem eru tiltölulega ósnortin eins og austan Möðrudals. Að mörgu leyti ekkert skárra en að stífla, enda hávaði og mengun frá bifreiðunum og vörubílunum og upphækkaður vegur breytir öllu sem fyrir var.

Lítið svo aðeins betur í kringum ykkur elskurnar mínar.

Afsaka mín kæru að þetta varð svona langt svar. En svona sé ég þessa hluti. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband