Blog/blogg - orðskrípi. Hvert þó í blogandi!

Eitthvað hefur þetta "blog.is" verið að angra mig undanfarið. Alltaf þegar ég les það þá les ég það eins og orðið "og" eða "sog" eða "flog". Er ekki ætlunin að hafa hart "g" hljóð á þessu -eða á orðið að skrifast sem "blogg" rétt eins og "egg" eða "sigg." Er alltaf að lesa hliðstæðuna með að ég sé með vefslóð sem rímar við veffari.flog.is  Svo er spurning hvort vefsvæðinafnið sé ekki eðlilegra sem "mblogg.is" fyrst þetta er nú moggablogg á mbl.is ? 

Og fyrst við teiknað inn þennan vinkil, þá er spurning hvort ekki þurfi að finna betra orð yfir þetta fyrirbæri. Blogg er enskt orð og angrar mig svo sem ekkert sérstaklega en samt er nú ekki vitlaust að reyna að koma íslensku orði á koppinn. Okkur þætti nú hálf furðulegt að tala um að setja karið í garassið og sjötta lætsin þegar maður fer að slípa. 

Nokkur orð vantar sem gætu tengst vefskrifum eða innfærslum en samt ná yfir þá vídd sem felst í svona vefpári. Í byrjun netsins fyrir um 10-12 árum hugsaði ég upp orðið "vefrit" (ábyggilega ekki sá eini) og tók í framhaldi af því lénið vefrit.com en vegna einhvers aulaskapar og áhugaleysis missti ég það. Skömmu eftir að ég tók þetta lén dúkkaði líka upp þetta orð hjá mér "vef-fari" sem er auðvitað hliðstætt geim-fara eða sæ-fara. En blogg-orðið liggur ekki eins beint við, þetta eru stundum þurrar leiðinda dagbókarfærslur um fundahöld og morgunnasl, réttritunarnasisma, soft-klám, athyglissýki, snilldar pælingar um hvað sem er, stjórnmálaumfjöllun, fagleg rýni, allt ýmist undir eigin nafni eða nikki.

Enska orðið blog er stytting úr b-log/web-log. Blogg er hálf áreynslulaust og slappt orð og ekki íslenskt. "Veffærsla" þykir mér þá beinasta-þýðingin, þ.e. "værsla" en auðvitað er ekki gefið að þýða hluti svona bókstaflega. Tvö ólík mál eru með ólíkum meiningum þó orðunum svipi til í útliti og gerð. Það getur því komið inn eitthvað ámóta meðtækilegt orð, því munur er á orðunum innfærslu og skrifum. Einnig er mikill munur á því að skrifa á blað, skrifa bók, eða blogga. Magnið t.d. skilur að bloggara og höfunda bóka, ritskoðun og sjálfsgagnrýni er meiri í prentuðu máli. Ég hef þá skoðun að nokkur orð hljómi eðlilega, allavega í mínum huga og að þau séu í raun mörg, eftir því hvaða hlutverki bloggið þjónar:

Bloggun:
værsla
netritun
netfærsla/veffærsla
netskrif/vefskrif
vefpár
leirnet...

Bloggari:
netriti (sbr. sagnaritari, á vel við þá sem skrifa eins og slíkir)
vefriti (á m.a. við um þá sem t.d. skrifa í vefrit eða vef-tímarit eða vefi með ákveðinni stefnu eða ímynd)
vefundur (skáld eða rithöfundur sem skrifar í gegnum netið)
vefskrifari (auðvitað komið fram og stytt sem veffari, sem er reyndar víðtækari)

Bloggsíða:
vefbekkur (eins og t.d. legubekkur sálfræðings, eða hefilbekkur smiðs)
vefspjald (tilkynningaspjald, mótmælandaspjald eða höfundur að gefa einhverjum gula spjaldið)
ritfærsluvefur
ritvinnsluvefur
netveggur eða neggur (óheflað veggarkrot) ...

Ætli málið sé ekki það að upp er að koma heill skógur nýyrða og að innihald þeirra mótist samhliða þróun netskrifa. Mín skoðun er að netskrif almennings sé ný ritöld. Ritöld hin nýja. Munurinn á fyrri tímum mikilla ritsmíða er sjálft magnið, aðgangurinn og hversu mikið af persónulegum vefritsfærslum ber keim auglýsinga og samræðustíls.

En fróðlegt væri að heyra skoðanir manna á ýmsum svona orðum.

Ólafur Þórðarson, AKA veffari, NYC, 2. Jan. 2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband