Hommagiftingar, öfgatrú, danssýningar og hlutverk kirkjunnar í nútíma þjóðfélagi.

Já þessi Jón Valur Jensson, hefur þurrkað út eðlileg innlegg mín á sinni bloggsíðu, en tekur því sem gefnu að aðrir lesi hans heilögu orð. Hann hefur svona sýnt í verki að hann er lítt umburðarlyndur gagnvart náunganum (t.d. mér) eða skoðunum annara (t.d. minna). "Ókristilegt" ef einhver spyrði mig míns auma álits. Hvað ef ég er hommi í þokkabót? Hækkar þá útsýnispallurinn hans Jóns?

Fór í mína fyrstu hommaskrúðgöngu í New York 1988. Ég hef þekkt svo marga homma, og reyndar einn prest sem er hommi. Misjafn sauður eins og gengur og gerist en bara ósköp venjulegt fólk, menn og konur, með sín áhugamál, en hneigist að og verður ástfangið af sama kyni. Ekki er það þeim að kenna, heldur er þetta svona frá náttúrunnar (Guðs?) hendi. Velja sér æfilanga maka hvort sem okkur líkar betur eða verr. Blessuð er minning mín í Limelight frá sömu árum, þar sem ég gekk inn í gamla kirkjubyggingu sem breytt hafði verið í hommaklúbb. Þar inni blasti við mér hin furðulegasta nærbuxnasýning þar sem kosið var um fegurstu karlmannanærbuxurnar. Og menn að dansa til að sýna þær. Þetta þótti mér og þykir skondið enn þann dag í dag. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það eigi að leyfa hommum og lesbíum að gifta sig í kirkju, rétt eins og öðrum pörum. Ef þau vilja það. Hvar sagði Jesú annars að hommar ættu ekki að mega gifta sig? Eða er verið að vitna í gamla testamentið með boðorðin tíu? Ó já, þetta með túlkunina á biblíunni er áhugavert, hún talar líka í Gamla testamentinu um að það sé í lagi að grýta sumar konur til dauða, hafa þræla og ýmislegt annað sem ekki passar saman við okkar þjóðfélag. Svo túlkun á biblíunni er að sjálfsögðu ekki börnum hæf ef hún er á annað borð svona rosalega hátíðleg.

Mikið er dásamlegt að með IVF (In Vitro Fertilization) geta lessur loksins eignast eigin börn og stórkostlegt ef hommar geta líka ættleitt. Það hlýtur að gefa lífi þessa foreldra og börnum mjög mikið gildi. Það er lítill skortur á óvelkomnum börnum en það á alltaf að vera pláss fyrir börn, hvar sem þau eiga heima og blessaðir eru þeir sem taka að sér slíkt ábyrgðarhlutverk. Veit þó ekki hvort ætti að leyfa öfgatrúarfólki að ættleiða. Það eru jú takmörk fyrir upp á hversu þvingað uppeldi má bjóða saklausum börnunum.

En hlutverk kirkju er kannski svolítið misskilið líka. Kirkjan er ekki bara prívat hof fyrir afturhaldssama bókstafstrúar-biblíuorma, heldur eins konar heilagur samkomustaður almennings, tilkostaður einmitt EKKI af prestum, Guði sjálfum eða krossinum, heldur fólkinu (ríkinu) í landinu. Þar ber því á jafnréttisgrundvelli að leyfa þjóðfélaginu að koma fram með sín mál og auka undir mátt góðseminnar, s.s. að sýna dánum virðingu og jákvæða minningu, bjóða börn velkomin í heiminn, gifta þau pör sem eiga saman, hafa kóra, syngja, ferma, stuðla að uppbyggilegri umræðu, blessa fólk og dýr og með þessu öllu má svo hafa orð Guðs inn á milli -og ef ég, sjálfur auminginn, mætti ráða, mætti hafa sem flest trúarbrögð þarna svo hægt sé að sjá út fyrir rörsýn klósettpappírssjónaukans. Ef ekki gengur að fá presta sem ekki vilja gifta hvern sem er, er kannski hægt að fá í staðinn Búddistapresta sem geta fengið yfirráð yfir amk helming kirkja, svona til að tryggja að ekki sé verið að troða á fótum ákveðinna þjóðfélagshópa í gegnum sameiginlega eign samfélagsins.

Ef kirkjunnar menn eru að mæla móti þessum beisikk hlutum og heimta Texas-Vatíkans-trúarbrögð sem enginn viti borinn maður hefur áhuga á né vilja til að fylgja eftir, dugar ekki að segja sig úr þjóðkirkjunni. Það mætti athuga með að skoða rækileg himinblá budget cuts og taka í umræðu að taka kirkjurnar frá þessu fordómafulla bókstafstrúarfólki og finna alvöru presta með umburðarlyndi sem er annt um alla, jafnvel annt um þá sem sumir telja "gallaða" af einhverjum sökum. Það er til fullt af slíkum góðmennum sem eru einmitt prestar. Eins og prestar eiga að vera. Annars að gera kirkjurnar að opnum samkomuhúsum fyrir hverfin eða breyta þeim í meðferðarstofnanir fyrir geðsjúka, neyslusjúklinga og afdrep fyrir fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi. Ef það gengur ekki, þá selja þær í hyldýpi djúpblárrar einkavæðingarinnar, þar sem þær gætu endað sem einbýlishús, listagallerí eða hommabarir. Nú er undir prestum komið að sýna umburðarlyndi og kærleik í orði og verki og hætta að taka þátt í að útskúfa ákveðnum hópum sem þeim er í nöp við.

Leyfum lessum og hommum að gifta sig. Þessar elskur eiga að vera hluti af okkar þjóðfélagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En hafa ekki hommar og lesbíur leyfi til sama löggernings og allir aðrir með staðfestu samvistinni? Fylgja henni ekki sömu réttindi og skyldur og í hjónavígslu? Hvað er þá málið ? Nú heyrast af því sögur að þessu til viðbótar þá geti vioðkomandi fengið blessunarathöfn áll víða hjá trúfélögum . Hvað er þá málið?

Siggi (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 03:39

2 identicon

En hafa ekki hommar og lesbíur leyfi til sama löggernings og allir aðrir með staðfestu samvistinni? Fylgja henni ekki sömu réttindi og skyldur og í hjónavígslu? Hvað er þá málið ? Nú heyrast af því sögur að þessu til viðbótar þá geti vioðkomandi fengið blessunarathöfn áll víða hjá trúfélögum . Hvað er þá málið?

Siggi (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 03:52

3 identicon

En hafa ekki hommar og lesbíur leyfi til sama löggernings og allir aðrir með staðfestu samvistinni? Fylgja henni ekki sömu réttindi og skyldur og í hjónavígslu? Hvað er þá málið ? Nú heyrast af því sögur að þessu til viðbótar þá geti vioðkomandi fengið blessunarathöfn áll víða hjá trúfélögum . Hvað er þá málið?

Siggi (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 03:52

4 Smámynd: Róbert Björnsson

Hehe ansi hefði verið gaman að komast á þennan Limelight stað...ætli hann sé ennþá starfræktur?     Í minni stuttu menningar-reisu til NY í fyrra kom ég við á Stonewall og kíkti í Oscar Wilde bókabúðina á horni Christopher og Gay Street.  Greenwich Village er hreint ótrúlegur staður...get varla ímyndað mér hvernig þetta var í gamla daga...before the dark times, before Rudy Guiliani.  Maður fékk hálfgert kúltúrsjokk í NY...sérstaklega eftir að hafa kúldrast hér í hinu rammkaþólska og republican Straight Cloud, Minnesota (næsti gay bar er niðrí Twin Cities...70 miles away ).  Engin furða að maður sé farinn að pipra.  Stundum sökkar það big time að búa í mið-vestrinu.

Varðandi blessuðu þjóðkirkjuna og þá krísu sem hún á í þessa dagana, þá held ég að hennar aðal-vandamál sé það að hún er ríkisrekin.  Það dettur engum í hug að þvinga Gunnar í Krossinum til að gefa saman homma og lesbíur.  En samkvæmt stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins er ríkisreknum stofnunum (sem og öðrum) óheimilt að mismuna fólki (og neita um þjónustu) á grundvelli kynhneigðar.  Í eðli sínu er þjóðkirkjan stofnun sem ber skylda til að veita borgurum ýmsa þjónustu.  (því allir landsmenn borga brúsann...hvort sem þeir eru trúaðir eður ey...gay eða straight)  Flestir landsmenn leita þangað til að gleðjast yfir hefðbundnum tímamótum í lífi barna sinna, svo og giftingum og loks til að sinna jarðarförum...ekki bara vegna trúarinnar, heldur vegna hefðarinnar og þess að kirkjurnar eru hentugir samkomustaðir fyrir fjölskyldur og vini, sem og samfélagið allt.

Auðvitað á ekki að þvinga trúfélög til þess að gera neitt sem þeim er á móti skapi.  Að sjálfsögðu á Alþingi hins vegar að leyfa trúfélögum að gefa saman samkynhneigða.  Þá geta þau trúfélög sem það kjósa (t.d. Fríkirkjan í Reykjavík og Ásatrúarfélagið) gert það en jafnframt væru hin trúfélögin á engann hátt þvinguð til þess.  Vissulega myndi skapast veruleg pressa á þjóðkirkjuna, því innan hennar starfa margir skynsamir og sanngjarnir prestar, sem ekki túlka biblíuna á jafn þröngan hátt og Svartstakkarnir, og mikill meirihluti sóknarbarna þjóðkirkjunnar er fylgjandi því að samkynhneigðir fái notið sömu þjónustu og aðrir. 

Nú er ég ekki trúaður og myndi ekki kæra mig um kirkju-giftingu ef ég skyldi nú einhverntíma finna hinn eina rétta, en svo lengi sem ríkið er að borga ótalda milljarða á ári til að halda uppi kirkju-batteríinu, finnst mér að allir ættu þar heimtingu á sömu þjónustu. 

Einhver bloggari spurði um daginn af hverju samkynhneigðir væru alltaf að troða sér þangað sem þeir væru óvelkomnir, og nú meira að segja inn í heilaga kirkju.   Svarið er kannski það að það er ekki svo langt síðan samkynhneigðir voru óvelkomnir alls staðar.  Þau mannréttindi sem samkynhneigðir búa við í dag á Íslandi, komu alls ekki af sjálfu sér og víða þurfti að troða sér inn þar sem fólk var ekki velkomið áður.  Hér í bandaríkjunum sér maður ekki lengur skilti á veitingahúsum, skemmtistöðum, skólum, opinberum byggingum og kirkjum sem segja "Whites Only".  Það er ekki vegna þess að svertingjar hafi allt í einu verið velkomnir (eru það reyndar víða ekki enn í dag), heldur vegna þess að fólk neitaði að láta koma fram við sig eins og annars flokks borgara vegna fordóma.

"Kristnir" menn hafa í gegnum aldirnar reynt að réttlæta misrétti, kvennakúgun og þrælahald með tilvitnunum í biblíuna.  Á síðustu öld risu konur upp og kröfðust jafnréttis og frelsis.  Sama gerðu blökkumenn.  Í dag eru það samkynhneigðir.   Það er sorglegt að fólk reyni enn þann dag í dag að fela fáfræði sína og mannhatur í skjóli biblíunnar.  Þó ég sé ekki trúaður hef ég þó lesið biblíuna og fékk ekki betur séð en að skilaboð Jésús Krists hefðu verið ást og umburðarlyndi.  Eru þessir "sann-kristnu" því ekki að misskilja frelsara sinn all verulega?

Róbert Björnsson, 3.5.2007 kl. 07:32

5 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Jesús jafnaðarmaður fra Nasaret, trúi ég að hafi elskað homma og lesbíur eins og aðra meðbræður sína, hafi hann á annað borð verið til. Bókin sem verið er að neyða okkur til að lesa í skólum í nafni þjóðtrúar er auðvitað kapítuli útaf fyrir sig og bera að taka mátulega alvarlega. Túlkun hempukarla og ofstækisdúda á ritningunni er síðan annar kapítuli sem ber að hafna með öllu.

Pálmi Gunnarsson, 3.5.2007 kl. 09:43

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég veit bara að sérstakur trúnaðarmaður minn í lífinu er alveg hörku hommi.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.6.2007 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband