Hlemmur: Miðpunktur í Reykjavík.

Hlemmur er miðpunktur í Reykjavík sem í göngufæri þjónar stóru og afar fjölbreyttu svæði. Það nær austur að Höfðatúni og upp Holtin. Í suðri tengir Hlemmur Rauðarárstíg og Norðurmýri. Í SV og vestri tengist áhrifasvæðið vel inn á Snorrabraut að Domus Medica og Austurbæjarskóla (560m) og þar niður Njálsgötu, Grettisgötu, Hverfisgötu og inn í hluta Skuggahverfis.

Hlemmur-miðpunktur í þéttri byggð.

Þetta er blönduð og þétt byggð sem er sérstæð, þó skipulag í svipuðum dúr megi finna á svæðinu vesturúr, allt að að Framnes- og Seljavegi.

Tenging Hlemms er sérstaklega mikilvæg því ás liggur niður Laugaveg niður á Lækjartorg ásamt hinum samhliða götunum neðan og ofan. Þessi ás þjónar gangandi vegfarendum og borginni nokkuð vel og er krítískur til að miðbærinn haldist lifandi og að Reykjavík sé með alvöru miðbæ. Hlemmur er því einn endi þessa áss en einnig miðpunktur mikilvægs borgarsvæðis, sem er ekki endilega talið í hausum á einsleitum vinnustöðvapunktum, heldur því borgarmynstri sem mótast af fjölbreyttri og þéttri byggð. Þetta borgarmynstur er að töluverðu leyti okkar arfur frá tíma samheldnari skipulagshugmynda og nær utan um þann kúltúr sem kallast eiginleg borg. Sá kúltúr sem er á þessu svæði breytist með tímanum eins og í öðrum borgum og með réttu átaki er hægt að reka stoðir undir velgengni hans. Með röngum áherslum er hægt að skemma miðpunktinn.

Strætómiðstöð gegnir þarna miðjuhlutverki í að dreifa gangandi til og frá svæðinu og er krítísk til að framtíðar uppbygging svæðisins geti farið fram, m.a. í að laga þessar skipulagsvillur síðan upp úr 1960.

Síðustu ár hafa strætisvagnar tekið yfir sístækkandi svæði í kringum Hlemm. Sem miðstöð má segja að Hlemmur hafi orðið stórkarlalegt strætóbílaflæmi sem er úr takti við æskilegt fíngerðara mynstur umhverfisins. Húsið, sem upphaflega átti að veita skjól í bið eftir strætó gerir það einungis að hluta til og nokkrir stopppunktar eru í hefðbundnum útiskýlum.

Vandinn gæti falist í því að bið farþega og bið vagnstjóra eru ekki sami hluturinn. Spurningin er hvort allir þessir strætóar eigi að bíða þarna og rýra gæði svæðisins. Eða hvort að strætóar eigi að bíða annars staðar og farþegar þá þar líka. BSÍ er á berangurslegu svæði og fátt þar við 1) en kannski er rétt að eitthvað af strætóbiðinni fari þangað, þar er aðstaða fyrir svona stóra bíla og góð biðstaða inni í sal. Ekki er verra að með því fæst betri tenging í rútuferðir.

Vel heppnaður Hlemmur felst að stóru leyti í hvernig smækka má þetta fyrirkomulag en að flestir strætóar stoppi á punktinum. Hvernig sem þetta verður gert er mikilvægast í lausninni að farþegar skynji Hlemm sem mikilvægann bið- og miðpunkt farþegaþjónustu. -Í hreinu aðlaðandi húsnæði með þægilegri og góðri þjónustu og nálægð við annað það sem skemmtileg borg hefur upp á að bjóða. 

Þetta eru nú svona almennar hugleiðingar um mikilvægi Hlemms hvað snýr að strætó.

 

1) Háskólatorg er í 1100m labbi í vestur frá BSÍ (svipað og Hlemmur-Lækjartorg). Í fæðingardeild Landspítala eru rúmlega 300m en í bensínstöðina eru um 230m. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband