Þunn umræðan um húsvernd á Laugavegi.

Ég sem hófsamur maður er hvorki vilhallur þeim sem vilja græða á að byggja á þessum lóðum, sama hvað er rifið, hvað þá endilega þeim sem vilja vernda allt, sama hvað á bjátar.

Það sem vantar í þessa umræðu er einfaldara: Hvað kæmi í staðinn fyrir þessar byggingar?

Munu þessar nýju byggingar bæta Laugaveginn og reka styrkari stoðir undir samfélags og götumynd þessa svæðis? Mun útlit og notkunargildi nýhýsanna verða jafn ljótt og stórkarlalega langavitleysan á Stjörnubíósreitnum sem fellur ekki vel inn í umhverfi sitt? Myndu þær verða snilldar arkitektúr sem er götumyndarstyrkjandi?

Hvernig myndu nýbyggingarnar breyta þessu umhverfi og hvernig myndu þær breyta miðbænum og hvað er jákvætt við þær breytingar og hvað ekki? 

Hef sagt þetta áður en það eru FORRÉTTINDI að fá að byggja í miðbænum og alls ekkert einkamál byggjendanna eða einhverra fjárfesta. Það er þeirra að sýna fram á hvernig nýja lausnin vegur sterkara en húsverndunin. Góð lausn gefur grænt ljós, léleg lausn gefur rautt ljós.

Hvar eru þá teikningarnar yfir það sem koma skal í staðinn fyrir þessar gömlu byggingar? Af hverju er þeim ekki hampað vel og rækilega og þær gagnrýndar og ræddar, í staðinn fyrir að tala í kringum efniskjarnann eins og köttur í kringum heitann graut? Vilja menn raunverulegar framfarir fyrir hinn ágæta Laugaveg, eða bara tala um þetta eins og um Amerískt beisbol lið á móti Amerísku beisbol liði?

Ef lóðirnar eru sameinaðar í eina stóra, þá er það skipulagsslys. Ef sami aðili byggir og hannar á einni stórri lóð í stað tveggja smærri, þá er það skipulagsslys. Ef eigandi ræður tvo aðskilda aðila til að byggja á sitt hvorri lóðinni sem aðskild verkefni, þá er það rétt formúla og ágætis byrjun með árþúsunda skipulagsreynslu að grunni. Þá er að fara í saumana á hvaða áhrif hin nýju hús hafa, hvernig þau eru útfærð, hæð etc etc. Enn og aftur vantar hvaða lausnir er verið að ræða. Hvaða lausnir eru þetta og hvar er umræðan um þær?

Nýbyggingar eru nefnilega ekki framfarir. Það sést um alla borg. Reyndar víðsvegar um land allt. Sumar nýbyggingar eru framfarir, aðrar ekki. Vonandi verður ekki stórslys á Laugaveginum!

Því vil ég sjá hvaða framfarir er verið að stinga upp á. Svo er að vega og meta hvort það séu í raun framfarir eða ekki, og meta út frá því hvort það séu nægilegar framfarir til að réttlæta niðurrif eða flutning á gömlum húsum sem hafa oftast mun ítarlegri sögu en skráð er á blað.


mbl.is Fá frest til að mótmæla friðunartillögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Torfusamtökin

Ég verð að taka undir hvert orð sem þú mælir. Teikning af fyrirhugðaðri byggingu á Laugavegi 4 og 6 ekki verið mikið til umræðu þó svo að hún sé að mörgu leyti ástæðan fyrir því hvernig er nú statt. Að mínu mati og margra annara fellur hún einfaldlega mjög illa að byggðinni í kring.

Ég skal birta mynd af nýbyggingunni á torfusamtokin.blog.is

Ég er sammála þér að ein aðal forsendan fyrir því að nýjar byggingar geti fallið að eldri byggð sé að byggðamynstur haldi sér og lóðir séu ekki sameinaðar.

Laugavegur 22a, 40 og 85 eru allt dæmi um nýlega uppbyggingu sem lítill styr hefur staðið um, þar voru engar lóðir sameinaðar.

Stjörnubíóreiturinn er hins vegar dæmi um sameiningu lóða og flestir sem ég þekki til eru sammála um að sú bygging sé skemmandi fyrir umhverfið.

Það hefur hins vegar verið stefna Reykjavíkurborgar að stuðla að sameiningu lóða í þeim tilgangi að "lokka" fjárfesta inn á svæðið. Í þessu samhengi hafa menn jafnvel gengið svo langt að tala um "fórnarkostnað". Þ.e. ef að tiltekið hús þarfnast endurnýjunar þá er nauðsynlegt að fórna nokkrum nærliggjandi húsum þó svo að þau séu í fínu lagi og jafnvel geri mikið fyrir umhverfið.

Nýbyggingin á Laugavegi 4 og 6 sem teiknuð hefur verið og samþykkt af Reykjavíkurborg er annað stjörnubíóslys. Úr því að svona var komið fyrir málum, var ákvörðun húsafriðunarnefndar um friðun þessara húsa fullkomlega réttlætanleg. Þeir hafa þó ekki tekið fyrir það endanlega að til greina komi að vinna töluvert með húsin, lyfta þeim upp og eða byggja í skarðið á milli húsana þar sem nú eru skúrabyggingar og á baklóðinni.

Ef þig vantar upplýsingar um útlit væntanlegra nýbyggingar á Laugaveginum, t.d á Laugavegi 33-35, ekki hika við að hafa samband við mig í netfanginu thordurm(at)hive.is

Torfusamtökin , 10.1.2008 kl. 01:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 1936

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband