Íslenskt barn í útlöndum og hvað er það að vera Íslendingur?

Lilja mín er 4. ára og býr hér í kanalandi. Móðirin er amerísk og talar enga íslensku. Ef ég mætti ráða myndi hún Lilja mín aðallega bara tala íslensku. Ég tala því eingöngu við hana á okkar máli. Les bara íslenskar bækur og ég slekk á kanasjónvarpi og set á íslenska DVD með frekju og yfirgangi. Ef ég gerði það ekki myndi hún ekki læra neitt í málinu. Þá þætti mér frekar langsótt að geta kallað hana íslenska því án málsins væri hún ekki með það sem er eitt aðalseinkenni þess að vera íslenskur: Að tala og skilja málið. 

Öll önnur áhrif á hana eru á ensku. Barnapían, krakkarnir í skólanum, mamman... Fyrir mér mætti þess vegna segja að enskan er algert aukaatriði fyrir mér líka. Þó auðvitað sé það ekki alveg svo bókstaflega, ég verð bara að vera svona einstrengislegur með þetta svo hún geti talað við litlu frænkur sínar á Íslandi, farið í skóla á Íslandi seinna meir ef hún vill, lesið íslenskar bækur og vefsíður. Og talað við ömmu og afa, frænkur og frænda án þess að svissa yfir í enskuna. Það er nú svo þannig líka að þó íslendingar séu sleipir í ensku, þá tapast helmingur úr samræðum við að svissa yfir úr íslenskunni. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá er það í gegnum móðurmálið sem allt annað skilst; bókmenntir, tónlist, leikrit, samræður, brandarar, Íslensk menning, tilfinning fyrir því sem skilst á milli línanna... hvernig hægt er að vera íslenskur án málsins fæ ég ekki skilið. Það hlýtur að vera erfitt. Samræður Íslendinga á Ensku eru aðrar samræður en þær sem fram fara á Íslensku, eitthvað sem ég hef tekið mikið eftir í gegnum árin. Einhver veggur sem skilur að.

Ég tek hattinn ofan fyrir þeim útlendingum sem flytja til Íslands og læra þetta erfiða mál og setja sig inn í það að vera íslendingur. Innst inni er maður það sem maður er alinn upp við. Það er því mikill ásetningur að gerast íslendingur. 

Nú er ég búinn að vera í BNA síðan 1983. Mér finnst ég enn vera á leiðinni heim einn góðann veðurdag. Þetta er langur tími og það sem hefur haldið við íslenskunni áður en netið kom sérstaklega, er að faðir minn hefur reglulega sent mér tætinga úr íslenskum dagblöðum alla tíð. Það hefur komið pakki á 2ja vikna fresti síðan 1983! Án þeirra hefði ég misst töluvert mikla tilfinningu fyrir málinu á fyrsta áratugnum, enda erfitt að halda því við með fáa eða enga íslendinga í kringum mann. Geri ráð fyrir að ýmislegt sé farið að ryðga án þess að ég viti af þvi. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband