Til er einfaldari lausn: Millilandaflug (farþega) í Vatnsmýrina.

Snjómokstur á Reykjavíkurvelli, svo Keflavíkurvelli, snjómokstur tvöfaldaður á tvöfaldaðri Reykjanesbraut, nú snjómokstur á lestarteinum. Já viðhald, halló. Á mamma að borga þetta? Hvers vegna vera að þessu öllu saman þegar hægt á að vera að fljúga millilandaflug beint í Vatnsmýrina og nota Keflavíkurvöll fyrir fraktflug, einkaþotur og varaflugvöll? Og Leifsstöð sem birgðargeymslu.

Ég veit það er hallærislegt að stinga upp á svona, en það er þjóðráð að reyna að hagræða svoldið með samþjöppun í þessu þjóðfélagi. Millilandaflugið í Vatnsmýri myndi spara þjóðfélaginu gríðarlegar upphæðir, fáir flugvellir eru eins langt í burtu í heiminum og Keflavíkurvöllur er frá Reykjavík. Og spara manni þessa leiðinda keyrslu sem Reykjanesbrautin er. Millilandaflug farþega í Vatnsmýrina myndi líka styrkja miðbæinn og ýta undir möguleika með samheldni í samgöngukerfum innan borgarinnar.

Nú held ég sé betra að setja fé í að rannsaka hagkvæmni þess að stækka Vatnsmýrarflugvöllinn rétt nægilega, og hvað þarf til að gera almennilega flugstöð sem annar innanlands og millilandaflugi -í Vatnsmýrinni. Þá er hægt að læra af öllum mistökunum gerðum í Leifsstöð. 

Ég sé fyrir mér flotta flugstöð í Vatnsmýrinni sem annar innanlandsflugi, millilandaflugi, rútuferðum um landið, strætóstoppistöð og jafnvel einn stoppipunktur framtíðar lestar sem þjónar öllu höfuðborgarsvæðinu. 

Takk fyrir. 

Logan flugvöllur að neðan, rétt hjá háhýsamiðborg Boston borgar. Þeir eru heppnir í Boston að hafa flugvöll svona í miðri borg. Enda einstaklega hagkvæmt fyrir farþega og alla flutninga. Ekki dytti neinum í hug að flytja Logan flugvöll til Kentucky! Já eða Krísuvíkur. Já eða...skyldi ég þora að segja það..: K---------??

boston- logan flugvöllur


mbl.is Vilja láta skoða hagkvæmi lestarsamgangna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Þetta er bara nokkuð snjöll hugmynd en sennilega of snjöll til að einhverjir vilji nota hana.

Jakob Falur Kristinsson, 19.2.2008 kl. 17:52

2 identicon

Það ganga lestir í Norður-Noregi, Finnlandi og í Síberíu. Þar snjóar meira en hér.

Við eigum líka svo mikið rafmagn og heitt vatn. Vel gerlegt.

Það stenst ekki alþjóðalög að hafa millilandaflugvöll svona nálægt byggð. Völlurinn er nú þegar á undanþágu. Ekki nema þú viljir færa 101 og 107 Reykjavík. 

Hvað ertu annars lengi frá Manhattan til JFK?  

Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 18:26

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

JFK er mun nær Manhattan en Keflavík er Reykjavík. En ekki hafa Nefjork búar enn lagt í sérstaka járnbrautarlest þó öllu heitara sé hér en í Síberíu.
Svo er heldur minna pláss á sjálfri Manhattan fyrir flugbraut en í Vatnsmýrinni.
Boston búar er næstum því  eins heppnir og Reykvíkingar! Þeir hafa sinn Logan flugvöll í miðri borg, varla meira en 1-2km frá skýjakljúfabyggð miðborgar Boston. Bætti því við loftmynd af Boston í bloggið að ofan, lesendum til hughreystingar og andlegrar hressingar. Flott að fljúga til Boston, ef þú átt heima í þeirri borg. 

Ólafur Þórðarson, 19.2.2008 kl. 18:59

4 identicon

Er alveg sammála þér þarna, þetta er gerlegt og ætti að vera hægt að stækka BIRK ( reykjavíkurflugvöll ) út til suðvestur ca með landfyllingu.  Við þurfum hann þar sem hann er og lítið sem ekkert ónæði af honum með tilkomu nýrra véla á borð við Dash vélarnar. Fokker vélarnar eru löngu komnar til feðra sinna og alltof hávaðasamar.  Þetta væri örugglega lítið mál að stækka landssvæðið mundi ég halda.

Kv

Sigurður 

nei (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 19:54

5 identicon

Og ég verð að finna eitthvað um hann Robert Moses Einhverjar uppástungur, fann bara á Wilkipedia.

nei (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 19:56

6 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Robert Moses er svona tvítóla kvekendi sem var duglegur að koma hraðbrautarkerfi á í kringum og í gegnum stórborgir BNA. Hann stórbætti samgöngur, þ.e. púkkaði undir efnhag BNA með bílvæðingu og lét ryðja niður allskyns hverfum uppfullum af fólki til að koma sínu í framkvæmd. Napóleón gerði svipað og lét ryðja hverfi fyrir boulevards svo hægt væri að komast leiðar sinnar. Efnið um Moses er svo mikið en töluvert mikil gagnrýni á hann, enda ekki vinsælt að ryðja hraðbraut í gegnum hvað sem er. Kannski ef hann hefði verið fínstilltari væri hann snilldar-sögu persóna.  Hér smá grein um nýafstaðna sýningu: http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/article/2007/03/09/AR2007030900449.html

Ólafur Þórðarson, 19.2.2008 kl. 20:17

7 identicon

Hann Moses karlinn var kannski aðeins grófari en ég, eða fullgrófari.

En til að ryðja íbúðarhúsum á Miklubraut, þá þarf að sýna sanngirni gagnvart íbúum, nú eða setja í stokk eins og talað hefur verið um.  En ég vona að ráðamenn muni passa sig að misgera engum til að framkvæmd geti komið vel út fyrir fjárlögin, líf fólksins gengur fyrir.

Skemmtilegast væri að koma sem mestri umferð undir yfirborðið á aðalbrautum en hafa þær öflugar án þess að stífla myndist, og létta á umferð í minni götum.  Væri snilld að geta lagt bíl á einum stað og nýtt aðra fararkosti á stóru svæði til verslunar og þjónustu, en Reykjavík er fulllítil í dag fyrir slíkt. 

nei (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 21:47

8 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Snilldin væri að geta sleppt bílnum svona að mestu leyti. Það gæti verið of seint að reyna það.

Ólafur Þórðarson, 19.2.2008 kl. 23:05

9 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Já og meðan ég man, þá er flugvöllur í Keflavík til þess gerður að snarauka bílismann. Mig grunar að flestir keyri þennan kafla, hvort sem lest eða rúta er fyrir hendi. Best er auðvitað að geta flogið til Keflavíkur úr Vatnsmýrinni. Lang fljótlegast.

Ólafur Þórðarson, 19.2.2008 kl. 23:07

10 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Frábært hjá þér að koma þessu að. Ég hef verið talsmaður þessa lengi að hefja millilandaflug til hávegs frá Reykjavíkurflugvelli. Það þarf ekki einu sinni að breyta merkingunum alþjóðlega. Þegar maður flýgur frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Sandgerði þá stendur REK á miðanum sem brottfarastaður.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 19.2.2008 kl. 23:41

11 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Það eru millilandaflug úr Vatnsmýrinni, en bara fyrir braskarakónga og bankastjóra í einkaþotum sem þykjast vera að vinna. Eðlilegt að gera kröfu um jafnrétti í þessu máli.

Ólafur Þórðarson, 20.2.2008 kl. 01:31

12 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Já þú segir nokkuð. Ætli nokkur stjórnmálamaður þori að minnast á þessa hugmynd. Sjálfstæðismenn eru svo áfjáðir í þetta byggingarland að það er engu lagi líkt... en auðvitað er þetta líka liður í að þétta byggð að vilja völlinn í burtu.

En ég verð að segja að mér lýst ekkert illa á þessa hugmynd þína svo lengi sem millilandaflugið valdi ekki of miklu raski. Þá væri t.d. ekki hægt að fljúga fyrr en um kl. 8 á morgnana vegna þess að flug fyrr veldur of miklu raski fyrir íbúa í grennd. Eins mætti ekki fljúga eftir kl. 22. á kvöldin. En það er ekki vitlaust að skipta einhvern veginn á milli þessara tveggja flugvalla álaginu og halda flugvellinum í Vatnsmýrinni. Ég hef aldrei verið sérstakur talsmaður þess að það ÞURFI að færa hann - en ég vil að þær lausnir sem eiga að koma í staðinn EF á að færa hann séu vel athugaðar. Það fer mikið eftir kostnaði við lest til Keflavíkur hvort það er skynsamari kostur en að byggja alveg nýjan flugvöll EF á að færa hann úr Vatnsmýrinni.

Tek það fram að ég bý sjálf stutt frá flugvellinum og þótt heyrist þar í flugvélum þá veldur það ekki miklu raski fyrir mig, maður venst því og þetta er ekki það mikið. En svo má vera að ef ætti að færa allt flug þangað að það yrði einfaldlega of mikið og ég verð að segja að ég heyri muninn á því þegar einkaþoturnar fara í loftið á við aðrar vélar, því það er einfaldlega miklu meiri hávaði.

Andrea J. Ólafsdóttir, 20.2.2008 kl. 14:09

13 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

vá, ég vona að þetta sé tröllafærsla. Einn flugvöll. Í Keflavík, takk! Andrea, stóru þoturnar hafa talsvert meiri hávaða en þær litlu.

Endurnýti hér komment mitt hjá hamstrinum fyrir nokkrum vikum (með smábreytingum, reyndar)

Eina afsökunin fyrir flugvelli í Vatnsmýri sem ég tek mögulega gilda, er nálægð við sjúkrahús. En er ekki verið að byggja hátæknisjúkrahús. Er ekki hægt að byggja það í samhengi við flugvöll? Fyrir sunnan Hafnarfjörð? Er það ekki álíka sentral og okkar elskulega miðborg. Hvers vegna þarf endilega að hafa það milli Hringbrauta?

Egilsstaðabúinn bróðir minn bíður eftir vondaveðursflugi í Garðabæ hjá mömmu og pabba; hann er sirka 10 mínútum lengur til Keflavíkur en á Reykjavíkurflugvöll. Þeir sem eru í Hafnarfirði, Árbæ, Grafarvogi, ofl. eru lengur. Talsvert oftar hægt að fljúga á Keflavík en Reykjavík, þannig að sú röksemd bara heldur ekki.

Mér finnst afskaplega þægilegt að hafa flugvöllinn 5 mínútur frá mér. Já og spítalann. En ég er alveg til í að fórna því fyrir að hafa ekki rellurnar fljúgandi yfir Austurbæjarskóla með börnin mín inni. Núna. og (2 mín seinna) núna, og (aftur 2-3 mín seinna) Og núna! Mér þykir líka mjög þægilegt að hafa spítalann í göngufæri. Líka vel til í að fórna því. Líka til þess að það þurfi ekki að halda áfram að byggja fyrir ofan snjólínu eins og stefnan hefur verið ansi hreint lengi.

Áætlunarvélarnar eru hættar að fara hér yfir, það eru bara tvær brautir sem eru í notkun þar. Norður-suður brautin, aðalbrautin, sem liggur yfir alla stjórnsýslu landsins. Bendið mér á aðflug sem liggur yfir þinghús lands og ráðhús höfuðborgar. Austur-vesturbrautin er miklu minna notuð - en samt mun hættuminni. Brautin sem liggur hér yfir er varabraut en greinilega notuð fyrir rellur samt, fyrir utan að þær virðast fljúga að vild hér yfir, sbr þessa fyrir örfáum árum, sem var nærri farin utan í Hallgrímskirkju.

Ég vil skoða út í æsar að byggja einteinung (mögulega yfirbyggðan) til Sunny Kef. Var skoðað og slegið út af kortinu fyrir nokkrum árum, hefur ekki byggðamynstur breyst ansi mikið síðan þá? Hve margir búa í Vogum eða Reykjanesbæ og vinna í Reykjavík, sem myndu nota sér slíkt, og voru ekki í samhenginu þegar þetta var skoðað síðast? (styð semsagt tillöguna í greininni)

Siðast en ekki síst: Hefur 300 þúsund manna þjóð virkilega efni á því að reka tvo flugvelli í fimmtíu kílómetra fjarlægð hvorn frá öðrum, núna þegar Kaninn er steinhættur að borga fyrir Kef? Ekki hefur nú ástandið á hinum holufyllta Reykjavíkurflugvelli bent til þess hingað til.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 22.2.2008 kl. 10:56

14 identicon

Ég er svona nokkurn vegin sammála Hildigunni hér að ofan. Einn flugvöll takk fyrir. Í Keflavík!

Byggðin á stór höfuðborgarsvæðinu er sífellt að teygja sig í áttina til Keflavíkur og það þarf að taka það til skoðunar þegar verið er að ákveða hvað skuli gera í þessu. Eftir 50 til 100 ár er næsta víst að það verði samfelld byggð á milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Á þessu landsvæði er kjör byggingarland. Norðan við Reykjavík fer fjalllendi að stoppa af þróun byggðar og sömu sögu er að segja austan og suðaustan við, þar sem friðlendi og fjöll hamlar byggð. Það ætti því öllum að vera ljóst að þungamiðjan mun færast í áttina til Keflavíkur á komandi árum eða áratugum. 

Hafi menn áhyggjur af samgöngum til og frá flugvallar, hvernig telja þeir að það verði að koma þúsundum farþega í flug og úr flugi á Reykjavíkurflugvelli fjórum sinnum á dag. Með því að byggja upp öflugan flugvöll í Keflavík er hægt að hugsa fyrir þessu. Það er verið að meta lestarsamgöngur á nýjan leik. Yfirbyggð hraðlest á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar gæti verið lausnin. Hvað svo sem verður er ljóst að það verður ekki til að bæta samgöngumál borgarinnar að fá þessa auknu umferð inn í miðbæinn. 

Eins og staðan er í dag er einstaklingur sem býr í Norðlingaholti fljótari að fara heiman frá sér til Keflavíkur heldur en niður á Hótel Loftleiði á háannatíma. Þetta veit ég sjálfur og hefur oft verið sannreint.

Mitt ljós í þessu er það að við erum að ræða um samgöngumiðstöð. Að staðsetja slíka miðstöð á svæði þar sem ekki er unnt að taka við umferðinni til og frá miðstöðinni er algjör fásinna. Öll logistic sem snýr að umferð og samgönguvandamálum segir manni að fara með flugvöllinn til Keflavíkur, vegna þess að þar eru meiri möguleikar fyrir hendi að byggja upp skilvirka samgöngumiðstöð. 

kristinn (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 12:38

15 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Hildigunnur mín, af hverju í ósköpunum ætti þetta að vera tröllafærsla? Það tók mig 1,5 klst dyr-í-dyr  að fara frá Leifsstöð með rútunni og svo taxa í Háaleitishverfið. Og svo 1,5 klst að fara úr Háaleitishverfinu á BSÍ og með rútu til Keflavíkur. Það eru 3 (ÞRJÁR!!) klukkustundir fram og til baka. Náðu nu í reiknivélina og reiknaðu tapið sem fylgir þessari vitleysu.

Auðvitað er tómt rugl að hafa flugvöllinn í Keflavík nema fyrir fraktflug og sem varavöll. 

Ólafur Þórðarson, 19.3.2008 kl. 14:14

16 Smámynd: Ólafur Þórðarson

"Hafi menn áhyggjur af samgöngum til og frá flugvallar, hvernig telja þeir að það verði að koma þúsundum farþega í flug og úr flugi á Reykjavíkurflugvelli fjórum sinnum á dag. Með því að byggja upp öflugan flugvöll í Keflavík er hægt að hugsa fyrir þessu."
Já þú meinar að keyra þúsundir farþega með farangur auka-100 km og þannig "leysa samgöngumálið"?? Ok, ég hef heyrt alls kyns rök um ævina, en þessi eru ansi skondin, vægast sagt. Það tekur mig lengri tíma að fara úr húsi í Háaleitishverfi til Keflavíkur en það tekur mig að fara úr húsi á Manhattan og út á flugvöll. Halló?

Byggðin er svo heldur ekkert að teygja sig til Keflavíkur. Leiðin til Keflavíkur hefur lengi verið og er enn aðallega hraun og berangursleg leið þar sem ekki er einu sinni sjoppa milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Annað eru ofsjónir. Hitt er annað mál að á sama tíma og menn tala um að þétta byggð í Vatnsmýri eru menn að ræða að teygja hana til Keflavíkur, þetta eru ekki nýjar þverstæður í röksemdafærslu í skipulagsmálum og hugarfar þurfa að breytast til muna og þá erum við komin í mun ítarlegri umræðu en það sem er rætt hér. 

Ég bý á Manhattan og bara skil eiginlega ekki hvaða voða umferð menn eru að tala um í Reykjavík. Það eru einhverjir umferðarhnútar á mestu annatímum og utan þeirra er umferðin frekar lítil.

Ólafur Þórðarson, 10.4.2008 kl. 01:07

17 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Andrea, takk fyrir innlitið. Þú segir að það sé liður í að þétta byggð að vilja Vatnsmýrina undir byggð. Reyndar er "þétting byggðar" umræðuefni sem hefur verið á miklum villigötum undanfarin ár. Þétting byggðar er allt annar handleggur en að byggja á svæðum með engum byggingum fyrir, þétting byggðar er eiginlega sér fag sem tekur langann tíma að útskýra en hefur lítið með Vatnsmýrina að gera. Það er hægt að segja að byggð í Vatnsmýri geti hjálpað við að tengja nærliggjandi byggðarhluta, en það er annað viðfangsefni. Tek þetta fyrir seinna. Bestu kv.

Ólafur Þórðarson, 10.4.2008 kl. 02:12

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og sautján?
Nota HTML-ham

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 1870

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband