New York hjólatúrar, meðfram Hudson ánni

   Jæja nú er sumarið komið og hjólreiðatúrarnir farnir að taka á sig aðra mynd. Þessi 15km leið meðfram Hudson ánni hefur með hækkandi sól breyzt úr grámyglulegum vetrarbúning í græna laufaslæðu Riverside Park. Það er alltaf afar áhugavert að hjóla héðan úr meinþéttu fjármálahverfinu og þangað sem grænu svæðin víkka. Maður fer úr mannhafi stressaðra braskara að ýta hvorum öðrum úr vegi, upp í grænann garð þar sem fólk er rólegt með myndavélar að mynda einhver dýr eða fugla, situr í sólinni og les bækur eða spilar fótbolta. Dóttir mín Lilja er í kerru aftan í hjólinu og fær að fara í 1-2 tíma rólótörn í flóðhestaróló (hippóróló eins og við köllum hann) við 92. götu. Þar er neBBlega hægt að skríða inn um munninn á flóðhestastyttu og koma svo út um... magann.

    Örstutt klippa af okkur að hjóla http://youtube.com/watch?v=i7tUnQLqTpc 

   Margt ber við á leiðinni, sem liggur í norð-norð-austur. Fyrst förum við í fjármálahverfið, þá gegnum Battery Park City, hverfi byggt á 9. áratug sem er með mjög vel heppnuðum og góðum margnota stíg meðfram ánni. Þar er m.a. Winter Garden, sem er stórt glerhýsi og kemur sér vel á köldum dögum og til tónleikahalda.

   Skammt norðan við var til margra ára bryggja þar sem hægt var að leigja hjól, fara í minigolf og fá sér snarl á útigrilli ofl. Fólk bjó þar í bát sínum sem það leigði út í einkasamkvæmi, allt mjög óformlegt. Bryggjan var rifin sl. sumar af verktökum á samning við borgina. Þeir stoppuðu svo verkið til að heimta meiri peninga. Óljóst er um framtíð bryggjunnar, því nú er búið að rífa hana með manni og mús og fjárlög eitt spurningamerki. manhatanz

   Rétt þar fyrir norðan er Canal Street þar sem Laurie Anderson er með stúdíó með útsýni yfir Hudon ána. Aðeins ofar eru nýlegár hvítar glerblokkir hannaðar af Richard Meier arkitekt, ekki endilega arkitektúrsnilld, en einfaldar blokkir fyrir vel stæða með einni íbúð per hæð.

   Ótal staðir eru á leiðinni þar sem hægt er að fjalla um. Maður hjólar m.a. fram hjá afgirtri byggingu við 15. götu, fyrrum bílastæðahúsi þar sem lögreglan hélt eitthvað 2000 manns í gíslingu vegna pólitískra skoðana árið 2004. Skammt fyrir norðan eru svo Chelsea Piers við 23. götu, áhugaverður staður með æfingasvæði kylfinga og bátahöfnum. Borgarmegin er nýrisin bygging eftir Frank Gehry, skemmtileg skúlptúræfing, en ekki endilega góður borgarstrúktúr. Tók eftir því meðan verið var að byggja hana að súlurnar eru steyptar skakkar til að fylgja eftir hallandi hliðum hússins. Rétt norðan við Chelsea Piers var veitingastaður á bryggju á sumrin. Þar var hægt að hjóla beint inn og að borði og setjast niður án formlegheita. Þar var líka hægt að leigja kajaka til að sigla í ánni. Að sjálfsögðu er nýbúið að rífa bryggjuna með veitingastað og alles, öll svona grasrótarfyrirbæri hverfa í gin einkavæðingarbrasksins, sem lofar borginni gulli og grænum skógum en stoppaði verkið strax eftir niðurrifið til að heimta meiri pening en samið var um. Þar fyrir norðan tekur við þyrlulendingarsvæði, flugmóðuskip og mörg smærri græn svæði.

    Sífelldur straumur fólks að hlaupa, ganga, á línuskautum, reiðhjólum fer upp og niður eftir öllum stígunum. Helst ber að vara sig á túristunum, sem eiga til að labba út á hjólastígana, hægt og stefnulaust eins og fólkið í Zombie myndunum. Sumir nota stíginn til að þjálfa sig í hjólakeppnir, þeir þekkjast úr á hjólunum, gallanum og hraðanum.

   Við 59 götu breytist leiðin mikið, þar sem breiðgatan sjálf breytist í hraðbraut sem fer upp á brúarsystem. Rét þar á undan er smá garður með ágætis risa-flöskuskúlptúr sem vert er að skoða, hægt er að kíkja inn í hann. Hjólreiðastígurinn fer svo undir hraðbrautina á 1-2km kafla og eru m.a. boltavellir þar, þá með þaki. Þetta er mikill strúktúr sem veitir gott skjól í rigningu og ekki verra að lítill opinn bar er þarna við stíginn á sumrin, þar sem hægt er að fá sér einn kaldann. Mér skilst að Donald Trump hafi átt þátt í þessum hluta og skál fyrir honum. Hægt er að hjóla beint í barinn og drekka einn stífann án þess að einu sinni fara af hjólinu. Þetta kallast þjónusta, en hana notfæri ég mér ekki með Lilju í eftirdragi að sjálfsögðu. Fæ mér í mesta falli djöfladrykkinn Coca Cola. Þá er haldið áfram norð-austur og m.a. farið framhjá smábátahöfn þar sem húsa- og lystibátar eru. Frekar farið að eldast og í niðurníðslu. Þá beygir stígurinn inn að borginni, fer inn undir hraðbrautina og kemur upp í hinn eiginlega Riverside Park. Þetta er frábær upplifun í rými, að fara frá opnum árbakkanum í garðinn með sínum 100-150 ára gömlu trjám. Yfir höfði manns er hæfilega þétt laufþak og hér breytist andrúmsloftið. Grænt svæði er hæfilega breitt og teygir sig nokkra kílómetra norður eftir ánni. Maður tekur ekki eftir hraðbrautinni sem er þar við. Minnir mig á að þetta svæði var hannað á bilinu ca 1870-1930, síðasta hollið þegar hraðbrautir voru fyrst að koma á sviðið. Þessi flétta hraðbrautar og útivistar er einstaklega vel heppnuð, gerólíkt eyðieyjum flestra hraðbrauta. Annað áhugavert er að lestargöng eru undir miðju garðsins, svo þrátt fyrir kyrrðina er mikið um að vera og svæðið þrælskipulagt án þess að ókunnugir tækju eftir.

   Við 96 stræti breytist garðurinn og verður enn rólegri, tvískiptur með sparkvöllum nær ánni og grænu svæði ofantil. Hér bjó ég við 116 götu þegar ég var í Columbia Háskóla á árunum 1987-1990. Joggaði á sínum tíma á svæðinu milli 96. og 119. götu. Minnistæð eru ótal partý frá þessum árum, þegar lífið snerist um mikla einbeitingu að námi og að djamma stíft þess á milli. Í dag fer ég oftast á hjólinu að þessum punkti (119 götu) og sný við og held aftur suður á bóginn.

    Og þá er hjólaferðinni lokið, samtals um 30 km leið. Tek fram að hér er afar mörgu sleppt úr. Hjólað eins oft og tími og veður leyfir. Skál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Björnsson

Góður rúntur...eru þeir búnir að opna USS Intrepid safnið aftur?  Skipið var í slipp þegar ég ætlaði að kíkja um borð í fyrra.  

Það er ekki eins mikið að sjá hérna upp með Mississippi ánni...en maður þarf þó ekki að horfa á New Jersey hinum megin árbakkans!   

Róbert Björnsson, 9.5.2007 kl. 03:59

2 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Mér skilst það sé í slipp fram á næsta ár. Veit ekki hvar allar rellurnar eru sem voru á dekkinu, m.a. U2 vél. Tékka á því í næsta túr!

Ólafur Þórðarson, 9.5.2007 kl. 04:19

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Aukahjól á ég, Örn. Var að koma ofanfrá, steikjandi hiti sól og gott að vera til.

Ólafur Þórðarson, 10.5.2007 kl. 03:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Ólafur Þórðarson

Þetta er blogg frá Manhattan.  Þetta blogg er sambland af faglegu blaðri og ýmsum skoðunum á þjóðfélagslegum hlutum.Ég hef til langs tíma verið gagnrýnandi í arkitektúr-, hönnunar- og borgarskipulagsdeildum ýmissa ágætra háskóla á austurströnd BNA. Þar fyrir utan reyni ég að lesa bækur um ýmis samfélagsmál og tengja saman í stærri heimsmynd.

Öll skynsamleg komment eru velkomin og vel þegin og gætu fengið ítarlegt svar.

Varðandi nafnleysingjaparanoju, þá heiti ég Ólafur Þórðarson. Bú!

Allt efni er höfundarvarið, en má dreifa ef getið er hvaðan það kemur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband